VERA

Virðing - Efling - Reynsla - Auðu

Úrræði Foreldrahúss fyrir börn og unglinga með áhættuhegðun og fjölskyldur þeirra kallast V.E.R.A. Úrræðið er fyrir börn og unglinga á aldrinum 10 -16 ára (5. til 10.bekk) með áhættuhegðun; einstaklinga sem eiga við hegðunarerfiðleika að stríða sem og tilfinningalega vanlíðan og þurfa mikinn stuðning. V.E.R.A. er hugsað sem langtímaúrræði og spannar yfir minnst tvær annir. Meðferðin er í formi hópastarfs sem á sér stað einu sinni í viku, 1,5 – 2 klst. í senn, auk vikulegra einstaklings- og fjölskylduviðtala og sjálfsstyrkingu foreldra. Úrræðið getur staðið í allt að ár og fer alveg eftir þörfum hvers einstaklings. Megináhersla úrræðisins er að vinna eftir þörfum einstaklingsins og er meðferðaáætlunin sett upp út frá þeim forsendum.  

Meðferðarnálgunin í V.E.R.A.

Meðferðarnálgunin felst í að veita innsýn inn í þá áhættuhegðun sem einstaklingurinn glímir við. Þannig er reynt að koma í veg fyrir og/eða draga úr vanlíðan og vanda einstaklingsins og fjölskyldu viðkomandi. Áhættuhegðun getur haft skaðlegar afleiðingar og markmiðið er að grípa inn í þetta ferli og veita þann stuðning, aðhald og ráðgjöf sem einstaklingurinn þarf á að halda. Til að koma í veg fyrir frekari skaða og bæta líðan einstaklingsins er mikilvægt að hlúa einnig að fjölskyldu hans. Þar af leiðandi er mikilvægt að einstaklingurinn fái að tjá sig í öruggu og styðjandi umhverfi, bæði einn og við aðra sem að honum koma. Því með aukinni getu einstaklingsins og fjölskyldunnar á að taka ábyrgð á þörfum sínum og tilfinningum með virkri tjáningu og hlustun, styrkjast tengslin. Við þær aðstæður fær einstaklingurinn tækifæri til að þroskast á heilbrigðan hátt.

Sjálfstyrkingarnámskeið fyrir foreldra sem er hluti af meðferð V.E.R.A:  

Foreldrar þátttakenda í V.E.R.A. taka þátt í sjö vikna foreldranámskeiði. Meginmarkmið námskeiðsins er að styrkja sjálfsmynd foreldra og efla vitund þeirra í hlutverkinu, sem og færni til þess að skapa og viðhalda heilbrigðum og nánum tengslum við börnin sín. Þannig er komið í veg fyrir og grípið inn í óæskilega hegðun eins og áhættuhegðun og samskiptaerfiðleika milli foreldra og barna. Þar með má draga úr eða koma í veg fyrir vanda innan fjölskyldunnar og nánasta umhverfi hennar. Námskeiðið mun hefjast í október og fer fram einu sinni í viku í 2 klst. í senn (alls 14 klst.).

Tímasetning 

Námskeið 1-2 í viku og viðtöl

Leiðbeinandi 

Elísabet Lorange, listmeðferðarfræðingur, auk fleira fagfólks sem kemur að hópastarfi og viðtalsmeðferð

Gjald 

25.000 kr. þátttökugjald á mánuði. Innifalið í því er viðtöl og námskeið

Skráning 

Skráning í V.E.R.A er í gegnum netfangið foreldrahus@foreldrahus.is eða í síma 511 6160. 

Nánari upplýsingar um V.E.R.A. má nálgast í síma 511 6160. 

Úrræðið er styrkt af Lýðheilsusjóði.

Opnunartímar 

Mánudag - Föstudag

09:00 - 16:00

Heimilisfang 

Suðurlandsbraut 50

Bláu húsin í Skeifunni 

Hægt er að bóka tíma í gegnum foreldrahus@foreldrahus.is  eða í síma 511-6160

Við erum á facebook

  • Facebook Social Icon

Skrifstofu sími

511 - 6160

NEYÐARNÚMER

5811-799